Strangari reglur gilda um Booking.com

Strangari reglur gilda um Booking.com

Booking.com hefur nú sex mánuði til að búa sig undir …
Booking.com hefur nú sex mánuði til að búa sig undir að heyra undir DMA-samkeppnislög Evrópusambandsins. AFP/Kirill Kudryavtsev

Evrópusambandið bætti í dag hollenska gistibókunarrisanum Booking.com á lista sinn yfir stafræn fyrirtæki sem náð hafa þeirri stærð að falla undir strangari samkeppnisreglur. Um leið bárust þær upplýsingar frá Brussel að sambandið hygðist rannsaka hvort samfélagsmiðillinn X, í eigu milljarðamæringsins Elon Musk, teldist geta notið undanþágu frá reglunum sem Booking.com hlítir nú.

Í ranni X voru þær mótbárur hafðar uppi að þrátt fyrir að samfélagsmiðillinn væri nú á mörkum strangari reglnanna hvað stærð snerti væri ekki hægt að líta á hann sem mikilvægan millilið fyrirtækja og neytenda. Reiknað er með að rannsókn ESB á stöðu X ljúki á haustdögum.

Jafna stöðu fyrirtækja

Við Booking.com blasir hins vegar sex mánaða frestur til að hafa allt sitt á þurru áður en nýju reglurnar ná yfir leitarvélina, sem er dótturfyrirtæki Booking Holdings í Bandaríkjunum, en meðal þeirra fyrirtækja sem þegar falla undir lög um stafræna markaði, Digital Markets Act, eða DMA, eru Amazon, Apple, Meta, Microsoft og ByteDance sem er eigandi samfélagsmiðilsins TikTok.

Með regluverkinu leitast ESB við að jafna stöðu fyrirtækja á stafrænum markaði með það fyrir augum að íbúum sambandsríkjanna bjóðist fleiri valkostir á vettvangi vefvafra og leitarvéla en sem dæmi má nefna að Booking.com er ráðandi aðili á markaði og nýtur rúmlega 60 prósenta markaðshlutdeildar á sínu sviði.

Háar sektir í krafti laganna

„Góðu fréttirnar eru þær að ferðamönnum bjóðast fleiri valkostir og hótelum bjóðast aukin viðskiptatækifæri,“ sagði Margrethe Vestager, framkvæmdastjóri samkeppnisstofnunar ESB, í dag er tilkynnt var um ákvörðunina.

Í yfirlýsingu frá Booking.com segir að fyrirtækið hafi verið komið í viðræður við ESB hálfu ári áður en tilkynnt var um þessa breytingu á lagalegri stöðu þess og muni kappkosta að vinna á uppbyggilegan hátt með sambandinu við að þróa lausnir sem dugi.

DMA-lögin mæla svo fyrir að ESB sé heimilt að sekta fyrirtæki, sem undir lögin falla, um allt að tíu hundraðshluta af heildarveltu þess á alþjóðavettvangi. Hlutfallið megi hækka í 20 hundraðshluta við ítrekuð brot auk þess sem ESB geti tekið ákvörðun um að fyrirtækjum skuli skipt upp í smærri einingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert